Fundargerðir


04.04.2019

 Ársfundur  Deildar íslenska fjárhundsins 27.02.2019

Fundur haldinn í húsnæði HRFÍ,  Síðumúla 15.

Fundur var boðaður kl. 20:00  Rangur lykill hafði verið afhentur svo ekki var hægt að komast  í hús á tilsettum tíma.

Þannig að  fundur er settur  kl. 20:30 af formanni Stefaníu Sigurðardóttur.

 

Stjórn sitja.

Formaður:  Stefanía Sigurðardóttir. Gjaldkeri: Helga Andresdóttir.  Ritari:  Arna Rúnarsdóttir.

Meðsjórnendur: Hrefna Sigfúsdóttir og Guðný Halla Gunnlaugsdóttir.

Tengiliður HRFÍ:  Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir.

Stefanía býður félagsmenn velkomna og stingur upp á  Ragnhildi Sigurðardóttur sem  fundarstjóra.  Félagsmenn samþykkja það með klappi.

 

Ársskýrsla 2018

Stefanía les yfir ársskýrslu sjórnar.  

Að loknum upplestri ársskýrslu óskar fundarstjóri eftir athugasemdum við skýrsluna.

Sunna Líf Háfþórsdóttir og Unnur Sveinsdóttir koma með athugasemd úr sæti varðandi Alþjóðlegan meistara Snætinda Sóma sem vanti í kafla skýrslunnar um nýja meistar á árinu 2018.

Formaður kemur í pontu til að svara þessu og þykir leitt að hafa ekki fengið neitt yfir þetta og að þetta verði leiðrétt tafarlaust.

Guðríður hefur beðið um orðið og kemur í pontu með athugasemd varðandi að fundargerðum hafi ekki öllum verið skilað frá árinu 2017. 

Arnfríður Inga fyrrum ritari díf kallar úr sæti sínu að þeim hafi verið skilað en séu ekki komnar á heimasíðu.   Guðríður heldur áfram og segir að fjöldi stjórnarfunda hafi verið réttur fram til 2018, en kvartar yfir því að það vanti að setja fundargerðir á heimasíðu, hún vonar að allar fundargerðir fráfarandi stjórnar verði settar inn á heimasíðuna sem fyrst.  Bendir á að fundargerðirnar séu hluti af sögu deildarinnar.

Formaður kemur í pontu til að svara Guðríði. 

Stefanía segir að hún hafi ekki uppl. um fjölda funda á árinu 2018, og vísar í ársskýrsluna og les upp.  – Eftir að núverandi stjórn tók við, þann 22. maí 2018 hafa verið haldnir sex stjórnarfundir á árinu til ársloka.  Stefanía bætir við að hún beri ekki ábyrgð á öðru.

Guðríður segir þá úr sæti,   -  Stefanía þú varst nú líka í þeirri stjórn -.

Formaður er í pontu og svarar :  Ég var ekki boðuð á alla fundi og hef ekki fundargerðirnar og get því ekki svarað fyrir það.

Arna Rúnarsdóttir ritari dif spyr úr sæti hvernig stigin reiknist fyrir afkvæmahópa, hvort þau reiknist á eigandann eða hundinn sem mætir með afkvæmin ?  

Þorsteinn Torsteinsson úr sæti, tekur undir með Örnu, og spyr hvernig stigin muni reiknast.

Sigurður Edgar kemur með svar og tillögu úr sæti um,  Stigahæsti ræktunarhundur díf.

 

Formaður fer í pontu og segir að stigin reiknist á hundinn,  aðskilið öðru.

 

Guðni Ágústsson spyr úr sæti,  hvort vitað sé um fjölda útfluttra hvolpa sem ættbókafærðir voru á árinu 2018 ?

Stefanía svarar úr pontu :   Það hafi ekki sérstaklega verið tekið saman fyrir skýrsluna að þessu sinni.

Fundarstjóri segir að ef ekki séu fleiri athugasemdir við skýrslu stjórnar, þá megi ræða hana betur undir liðnum önnur mál.  Í beinu framhaldi óskar fundarstjóri eftir að ársskýrsla stjórnar díf 2018 verði samþykkt eða hafnað með handauppréttingu.

Ársskýrsla þá samhljóða samþykkt.

 

Ársreikningar 2018

Fundarstjóri tekur að sér að lesa ársreikninga fyrir fundinn að beiðni Helgu Andrésdóttur, gjaldkera.

Unnur gerir athugasemd úr sæti,  finnst hátt hlutfall fara í innkaup matvæla, rúm 40.000.-

Helga gjaldkeri svarar úr sæti :  Þessi stjórn tók við í lok maí og því óvíst að allt sé byggt á setu núverandi stjórnar.

Fundarstjóri óskar eftir samþykki fundarins á ársreikningum með handauppréttingum.

Ársreikningur 2018 samþykktur með miklum meirihluta.

 

Stjórnarkjör

Stefanía Sigurðardóttir  formaður og  Hrefna Sigfúsdóttir meðstjórnandi gefa báðar kost á sér til endurkjörs, engin mótframboð.  Eru þær því kjörnar til næstu 2ja ára og samþykkti fundurinn með klappi.

Fundarstjóri gefur Örnu Rúnarsdóttur ritara orðið.

Arna tilkynnir fundinum að hún óski eftir að hætta í stjórn eftir 1 árs stjórnarsetu.

Fundarstjóri óskar eftir framboðum eða tilnefningum.

Stefanía Sigurðardóttir formaður stingur upp á að Ragnhildur Sigurðardóttir gefi kost á sér til þessa 1 árs. Fundarstjórinn Ragnhildur Sigurðardóttir móast við, en lætur undan og er samþykkt af fundinum með glimrandi klappi.

 

30 min.  kaffihlé og rjómaterta.

Verðlaun og viðurkenningar

 Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur samkvæmt stigatöflu dif.

 Formaður díf heiðrar einstaka persónur og hunda ársins 2018.

1.    Mónika Karlsdóttir fær heiðursskjal og blóm fyrir kynningu á íslenska fjárhundinum. Ævintýrabækurnar um Hófí.                                       Einstakt framlag til kynningar á íslenska fjárhundinum 2018. 

Mónika þakkar fyrir sig og segir frá að litabók með myndum úr Hófí bókum sé væntanleg  6. mars  og í maí 2019 verði 3. bókin gefin út. Monika afhendir Stefaníu gjöf til díf, bækurnar sem gefnar voru út á árinu 2018, eru þær áletraðar og til sýnis á skrifstofu HRFÍ.

2.   Ungliðinn ISJCh Laufeyjar Sigurskúfur Frá Dverghamri átti ótrúlegan sýningarkafla. Framúrskarandi sýningaárangur ungliða árið 2018 .

3.   Stigahæsti hundur í hlýðni 2018  Sunnusteins Hryðja hefur hlotið nafnbótina OB-1.  Ræktandinn ÞorsteinnThorsteinson móttekur.

4.   Stigahæsti öldungur ársins 2018  ISVW-16 ISCh ISVetCh RW-13 OB-1 Stefsstells Skrúður  og C.I.B ISCh RW-14 Snætinda Ísafold, jöfn með 18 stig.

5.   Stigahæsti ræktandi ársins 2018 Snætinda ræktun og Laufeyjar ræktun, jöfn 7stig.

6.   Stigahæsti hundur ársins af gangstæðu kyni 2018 ISCh ISJCh RW-18 Stemma Rektorsdóttir frá  Ólafsvöllum. Hún hlaut 15 stig.

7.   Stigahæsti hundur ársins 2018  ISCh ISJCh RW-17 Sunnusteins Einir  -hlaut 33 stig.
Linda Björk Jónsdóttir eigandi og sýnandi hans kom með Eini á fundinn og tók með sér farandgrip stigahæsta hunds deildarinnar sem Hans Ake Sperne gaf díf, en þetta er annað árið í röð sem Sunnusteins Einir er stigahæsti íslenski fjárhundurinn skv. stigatöflu díf yfir sýningaárið.  Hamingjuóskir.

Myndir voru teknar af öllum viðurkenningum.

 

Önnur mál.

Monika Karlsdóttir tilkynnir formanni og fundinum áður en hún fer af fundi að hún gefi  Dif möguleika á að fá bækurnar sínar í umboðssölu, þannig að deildin geti notið ágóða af smásöluverði. Vel er boðið og það þegið með þökkum.

Arnfríður Inga Arnmundardóttir gerir ahugasemdir úr sæti. Hún staðfestir að hún hafi skilað af sér fundargerðabókum til ritara stjórnar, Örnu Rúnarsdóttur.   Fráfarandi ritari, Arna Rúnarsdóttir tekur til máls og segist hafa skilað þessum bókum til Stefaníu á stjórnarfundi. 

Stefanía fer í pontu að svara: Hún segir að hún hafi þessar bækur, gamlar skinnbækur, fundargerðarbækur díf.  En að þónokkuð vanti upp á skil fyrri stjórnar á fundargerðum og öllum öðrum eigum díf. Það sé bara þannig og að svoleiðis hafi fyrri stjórn skilið við.

Arnfríður kemur í pontu og spyr formann : Ertu að segja að ég sé að ljúga ? Arnfríður fullyrðir að hún hafi skilað öllu af sér til Örnu.  Arna kallar úr sæti sínu að þær hafi hist og Arnfríður hafi látið sig hafa bækur og möppu með nýjustu fundargerðunum og svo komið með þetta allt á stjórnarfund og látið núverandi formann hafa.

Formaður hefur beðið um orðið og fer í pontu: Stefanía segir, nú skulum við anda.

Ég hef tekið við gömlu fundargerðabókunum sem Arna kom réttilega með á stjórnarfund okkar hér á skrifstofu í haust frá Arnfríði fyrrum ritara díf.  Annað hef ég ekki móttekið og alveg á hreinu hvað mína stjórnarsetu varðar að þessum fundargerðum er ekki skilað, og ekki eru þær færðar inn á heimasíðu deildarinnar árið 2018, frá okt. 2017 og þar til ný stjórn kemur saman 22. maí 2018.

Fundarstjóri segir að orðið sé laust.

Guðríður kemur í pontu með stjórnarerindi sem er frá Ailsa Stott í Bretlandi vegna áhuga á ræktun íslenska fjárhundsins þar.  Áhugi er að fá kynið viðurkennt í breska hundaræktarfélagið og leitaði Ailsa til deildarinnar og HRFÍ. Málið er í farvegi og munum við gera allt sem í okkar valdi stendur varðandi aðstoð og upplýsingar. Gerðar eru kröfur um 20 óskyld ræktunardýr til þess að kynið verði viðurkennt eftir þeim uppl. sem við höfum. Maðurinn hennar ræktaði border collie  það væri kannski gaman að fá hann með fyrirlestur. 

Anna Jónsdóttir úr sæti.  Ef stjórnarmaður var að ljúga um félagsmann á opnum fundi er ekki lágmark að hann biðjist afsökunnar. 

Guðríður Valgeirsdóttir fer í pontu og segist hafa verið á tilgreindum fundi og það hafi enginn verið nafngreindur, þar hafi hún verið og heyrt það sem fram fór.

Kristín Birgisdóttir úr sæti, segir að hún hafi líka verið á fundinum og ræktandinn hafi aldrei verið nafngreindur. Guðný Halla hafi sagt hátt og skýrt og spurt,  viljið þið virkilega vita hver þetta er.  Þá hafi allir neitað og enn vissi hún ekki hver hefði átt þennan hvolp.

Anna Jónsdóttir fullyrðir að Guðný Halla hafi ætlaði að nafngreina .

Guðný Halla biður fundarstjóra um orðið, hún vilji fá að útskýra mál sitt. Guðný Halla í pontu  segist vera sú sem um ræði. Hún vilji ekki að aðrir stjórnarmeðlimir sitji undir þessum ásökunum um lygi og slúður. Hún hafi engan ætlað að skaða. Henni þætti leitt að þessi leiðindi fóru af stað á opnu húsi í haust. Guðný biður um að fá að lesa upp álitsgerð lögfræðings sem hún segist hafa leitað til m.a. vegna meiðandi skrifa um sig og til sín persónulega, þá einnig í bréfi til stjórnar díf, bréfi sem stjórn gat ekki fyllilega fjallað um, né svarað.

Fundarstjóri gefur Guðnýju Höllu leyfi til að hefja lestur en stoppar fljótt upplestur á bréfi. Fundarstjóri segir að um sé að ræða persónulegt tal og persónuleg mál á milli tveggja til þriggja einstaklinga og það ekki vera mál stjórnar. Þetta á ekki heima hér á aðalfundi. Fyrir þessi mál eru önnur úrræði, sbr. siðanefnd. Orðið er laust.

Sunna Líf  tekur til máls úr sæti er varðar facebook-síðuna í skýrslu stjórnar. Það var bara ein manneskja sem var kærð til siðanefndar og hann fundinn sekur segir Sunna.

Stefanía svarar að mikið hafi verið að gerast í ágreiningsmálum þegar ný stjórn tók við.  Að lækka spennustig og útiloka engan hafi hún einsett nýrri stjórn og það verið fyrsta verk að opna á alla í þessum félagsskap og framfylgja þeirri stefnu.

Sunna segir að hún hafi fengið bréf frá siðanefnd um að hann hafi verið fundinn sekur. Segir að stjórn díf hafi kært hann og líka hún sjálf persónulega.

Formaður stendur í pontu og segir að slík mál hafi verið afgreidd eða látin niður falla og hamli svo sannarlega ekki þessari stjórn. Hér er ný stjórn og ákörðun hennar á þeim tíma að félagsskapurinn á facebook stæði öllum opinn.

Ragnhildur fundarstjóri: Þetta er liðin tíð.

Stefanía tekur undir með fundarstjóra,  segist ekki halda uppá liðin leiðindi, né önnur.  Margt skemmtilegt sé framundan sem við eigum að horfa til og gleðjast yfir. Í núinu sé afmæisár, stutt í deildarsýningu og ISIC ráðstefna haldin á Íslandi í ár.

Þorsteinn Thorsteinson úr sal með fyrirspurn til stjórnar: Er búið að opna fyrir skráningu á deildarsýningu?
Stefanía svarar: Nei ekki ennþá, ekki vitað með hvaða hætti við bjóðum skráningu og eftir að ákvarða nokkra hluti en stefnum á mánaðar skráningafrest.

Þá gefur fundarstjóri formanninum áfram orðið.

Stefanía fer í pontu og þakkar fundarstjóra góð störf sem og fundargestum samveruna og samtalið.  Þarft sé að tala um afmæli HRFÍ og deildarinnar í haust og þau flottu verkefni sem framundan eru, veislan okkar byrjar í maí með deildarsýningu. Stefanía útskýrir,  segir líka frá afmælisnefnd HRFÍ þar sem díf á nokkra fulltrúa í nefnd,  Þorstein  Lindu Björk, Arnfríði Ingu og Möggu Báru sem er flott famtak frá díf.

Formaður þakkar veittan stuðning og hvatningu sem hún hefur fengið og er ánægð að sjá svo marga deildarmeðlimi loks saman komna á ársfundi.  Til hamingju með 40 ára afmælisár díf og bætir við að hún muni leita aðstoðar í hin ýmsu verk sem tilheyri viðburðum ársins.

Fundi slitið kl 22. 52

27. feb. 2019

Guðný Halla Gunnlaugsdóttir, fundarritari.