Fundargerðir


17.03.2008

Fundurinn var haldinn í sal Sjálfstæðisfélagsins í Grafarvogi, Hverafold 1-3. Guðni Ágústsson formaður setti fundinn kl. 20:00 og stakk upp á Þorbergi Þorbergssyni sem fundarstjóra og Þorsteini Thorsteinson sem ritara og var það samþykkt. 

Dagskrá fundarins: 

  1. Skýrsla stjórnar, Guðni Ágústsson formaður
  2. Ársreikningar DÍF, Elís E. Stefánsson gjaldkeri
  3. Stjórnarkjör
  4. Önnur mál

1. 

Guðni Ágústsson formaður tók til máls og las skýrslu stjórnar og fylgir skýrslan með fundargerðinni. Skýrslan verður sett á heimasíðu deildarinnar. (Smellið hér til að lesa skýrslu stjórnar)

2. 

Elís E. Stefánsson gjaldkeri fór yfir reikninga deildarinnar og fylgja þeir einnig fundargerðinni. Reikningarnir voru síðan bornir upp til samþykktar og samþykktir samhljóða. 

Fundarstjóri opnaði fyrir spurningar um skýrslu stjórnar. 

Stefanía Sigurðardóttir spurði um tengilið stjórna HRFÍ og DÍF sem skipaður er til tveggja ára í senn en núverandi tengliður er Guðríður Þ. Valgeirsdóttir. Stefanía spurði út í stöðuna á þessu máli en nú eru 3 ár síðan tengiliður var fyrst skipaður og reglugerð um starfsemi ræktunardeilda HRFÍ breytt m.t.t. þessa. Guðni upplýsti að á fyrsta stjórnarfundi fráfarandi stjórnar hafi málið verið rætt en þá hafði það ekki verið rætt frekar innan stjórnar HRFÍ. 

Stefanía Sigurðardóttir spurði hvort deildin hafi hugsað sér að sækja um aukið sjálfstæði deildarinnar til stjórnar HRFÍ. Guðni svaraði að þetta hafi ekki verið rætt innan stjórnar deildarinnar. Þorsteinn Þorbergsson upplýsti hvernig lög og reglur HRFÍ hafi þróast í gegnum árin og mótast að fyrirmynd hundaræktarfélaganna á Norðurlöndunum. 

Stefanía Sigurðardóttir spurði út í veggspjald það sem Búnaðarsamband Íslands vinnur að með myndum af íslenskum fjárhundum. Guðni upplýsti að veggspjaldið sé í vinnslu hjá Búnaðarsambandinu. 

3. 

Kosningar til stjórnar. Þetta árið ganga 3 einstaklingar úr stjórn deildarinnar en það eru þau Þorsteinn Thorsteinson ritari, Ágúst Ágústsson meðstjórnandi og Helga Andrésdóttir meðstjórnandi. 

Lýst var eftir framboðum til stjórnar. 

Ágúst Ágústsson, Helga Andrésdóttir og Þorsteinn Thorsteinson gefa kost á sér og eru því sjálfkjörin í stjórn DÍF til næstu 2 ára. 

4. 

Undir liðnum önnur mál tóku eftirfarandi til máls.

Guðni Ágústsson þakkar fyrir stuðning við sitjandi stjórnarmeðlimi. Nefndir innan deildarinnar eru skipaðar af stjórn og spurði Guðni hvort einhver hafi hug á að starfa í nefndum á vegum DÍF. 

María Dóra Þórarinsdóttir var beðin að kynna smalaeðlispróf HRFÍ fyrir fundarmönnum en prófið er miðað að því að sjá vinnueiginleika fjárhunda. Prófið var þýtt frá Ameríku og heitir þar Herding instinct test. Stjórn HRFÍ hefur viðurkennt prófið sem vinnueiginleikapróf fyrir fjárhunda. Þetta er eðliseiginleikapróf og einungis eðlislægir eiginleikar hundsins eru skoðaðir og því þurfa hundar ekki að þekkja fé fyrir prófið. Flestir hundar standast prófið nema þeir séu hættulegir fénu, eru virkilega hræddir eða algjörlega áhugalausir. María Dóra segir að virkilega gaman væri að fá fleiri íslenska fjárhunda í smalaeðlispróf en næsta próf verður væntanlega í haust. 

Umræður og fyrirspurnir úr sal. M.a. var spurt til hvers sé ætlast af hundinum og upplýsir María Dóra að hver og einn hundur sé metinn á eigin grundvelli og hundar þurfa ekkert að kunna fyrir prófið. Einnig var spurt hvort prófdómari þekki íslenska fjárhundinn en María Dóra var prófdómari í fyrstu tveimur prófunum en hún á bæði íslenska fjárhunda og border collie. Þá var spurt hvort eigandi fylgi hundinum í prófinu og er það svo. 

Arna Rúnarsdóttir spurði hvort ekki sé tímabært að íslenski fjárhundurinn þurfi að uppfylla einhverjar kröfur, s.s. smalaeðlispróf eða skapgerðarmat, til að fá íslenskan meistaratitil? Hún spurði jafnframt hvort ekki ætti að reyna að halda sérstakt fjáreðlispróf fyrir íslenskan fjárhund. María Dóra sagðist ekki trúa öðru en að Fjár- og Hjarðhundadeildin mundi bjóða okkur velkomin í smalaeðlispróf. Helga Andrésdóttir velti fyrir sér hvort ekki væri hægt að halda sérstaka prófhelgi með smalaeðlisprófi fyrir íslenska fjárhunda. 

Monika Karlsdóttir spurði hvort til sé einhver æskilegasta niðurstaða á smalaeðlisprófi fyrir íslenska fjárhundinn. María Dóra segir að það sé deildarinnar að gera en til þess þurfi fyrst að skoða fyrst nægjanlegan fjölda hunda. 

Umræður voru um skapgerðarmat og að nauðsynlegt sé að meta fleiri hunda svo hægt verði að sjá hver æskilegasta niðurstaða hundanna verði á matinu. Þorsteinn Thorsteinson upplýstiað innan ISIC sé starfandi nefnd sem mun fara yfir niðurstöður skapgerðarmats en vandamál sé að ekki hafi nægjanlega margir hundar verið metnir hér á landi. Monika Karlsdóttir sagðist frekar vilja að gerði yrði krafa um fjáreðlispróf en skapgerðarmat. 

Þorsteinn Þorbergsson spurði hvort fólki finnist eðlilegt að ræktunarupplýsingar og niðurstöður heilbrigðisskoðana og prófa séu opinberar og taka fundarmenn undir það. 

Linda B. Jónsdóttir sagðist ekki sjá að hinn almenni hundaeigandi muni mæta með hunda sína í fjáreðlispróf, nægjanlega erfitt sé að fá hunda bara í mjaðmamyndatöku og augnskoðun. Hafþór Snæbjörnsson velti því fyrir sér hvort þetta snúist ekki að miklu leiti um kostnað. 

Elís E. Stefánsson sagði að nokkuð væri um ræktendur sem ekki fari að reglum HRFÍ, þeir fá áminningarbréf frá félaginu en síðan gerist ekkert meir. Þorsteinn Þorbergsson, formaður siðanefndar HRFÍ, segir að þeir sem skila inn gotskráningum sem ekki uppfylli grunnskilyrði borgi dýrari ættbók. Við þriðja brot af þessu tagi sé svona málum vísað til siðanefndar en grunnskylda HRFÍ sé að stuðla að heilbrigðri ræktun og gefa út ættbækur. 

Umræður um áheyrnarfulltrúa í stjórn DÍF. Guðni sagði að ekki væri óeðlilegt að HRFÍ hafi sinn fulltrúa í stjórn deildarinnar en leiðin sem farin var að því að skipa fulltrúann hafi ekki verið nægjanlega góð. Hann sagði að þetta ætti jafnvel að vera öfugt, að fulltrúi DÍF sitji fundi hjá stjórn HRFÍ. Arna Rúnarsdóttir sagði að koma verði skýrt fram hjá deildinni að áheyrnarfulltrúinn hafi ekki atkvæðisrétt í stjórn DÍF. Ágúst Ágústsson sagðist ekki sjá þörf á fulltrúa frá stjórn HRFÍ í stjórn DÍF. Fundurinn samþykkti að fela stjórn DÍF að vinna í þessu máli og að reglur varðandi áheyrnarfulltrúann verði skilgreindar betur. 

Stefanía Sigurðardóttir spurði hvernig boðað hafi verið til fundarins. Þorsteinn Þorbergsson sagði að til fundarins hafi verið boðað bæði á heimasíðu DÍF og HRFÍ. Stefanía lagði til að póstlisti deildarinnar verði virkjaður og að ef ekki verði boðað til ársfundar skriflega verði fundarboð sent á póstlista. 

Guðni Ágústsson þakkaði fundarmönnum fyrir ánægjulegan fund og stjórn fyrir ánægjulegt samstarf. 

Fundi slitið kl. 22:12