Fundargerðir


08.09.2011

Fundur 08.09.2011

Hlaðhömrum kl. 20:00

 

Mættir eru Ágúst Ágústsson, Rúnar Tryggvason, Monika Karlsdóttir, Helga Andrésdóttir og Unnur Sveinsdóttir

 

1.       Undirskriftir stjórnarmeðlima vegna reikninga í Arion banka

Gengið frá öllum gögnum sem tengjast prókúruskiptum og aðgang að reikningum.

 

2.       Linda og nýja heimasíðan

Það er búið að finna nýjan hýsingaraðila fyrir heimasíðuna.  Nýja síðan er samt sem áður ekki alveg tilbúin til að fara í loftið.  Linda þarf aðeins lengri tíma og þarf líka að fá uppfærslu fyrir gagnagrunninn frá skrifstofu HRFÍ.  Um leið og hún er tilbúin fer hún í loftið.  Áætlað að reyna að hafa allt klárt í lok september.

 

3.       Guðrún Guðjónssen

Stefnt á að halda opna húsið mánaðarmótin sep og okt.  Steini ætlar að sækja hana og sjá um Guðrúnu og koma henni til okkar.  Dagsetning á fundinn verða ákveðin fljótlega.  Það þarf að bjóða dómaranemunum að koma.  Undirbúa og finna eitthvað hentugt með kaffinu osfrv.

 

4.       Hvað á að standa og hvað ekki varðandi hvolpaauglýsingar?

Rætt um orðalag á hvolpasíðunni og hvort er hægt að orða heilsufarsupplýsingar á foreldrum hvolpa.  Þá er aðallega verið að hugsa um erlenda gesti á heimasíðuna.  Í staðinn fyrir augnskoðunar niðurstöðu verður skrifað „gild augnskoðun“.  –Samþykkt-

 

Á hvolpalistanum hefur aldrei verið auglýst got sem stenst ekki kröfur HRFÍ.  Einnig var rætt um mjaðmalosið og hvort það ætti að orða það öðruvísi en það var fellt og ákveðið að leyfa því að standa eins og það er.

 

5.       ISIC skýrslan og hvernig gengur með hana.

Örlítil vinna eftir í skýrslunni.  Helga og Ágúst fara á ISIC.

 

6.       Viðbrögð stjórnar ef við fáum neitun á áformaða deildarsýningu í janúar. 

Við erum búin að ræða við dómara og vinna að miklum undirbúningi.  Má dómarinn dæma á opinni deildarsýningu hér á íslandi ef við fáum neitun?  Þurfum að kanna það því við viljum halda dómaranum og fá hann hingað til að halda fræðslufund fyrir okkur á sunnudeginum ef allt gengur upp.  Bíðum eftir svari frá stjórn Hrfí.

 

7.       Setja inn auglýsingu á síðuna fyrir ræktendur sem vilja auglýsa í dagatalið

Það stendur í auglýsingunni um myndir í dagatal.  Vefstjóri umorðar auglýsinguna svo það sé meira áberandi. 

 

8.       Önnur mál. 

Vinnuhundaumræða, brons, hlýðni 1, erlendur dómari ogsfrv.  Monika nefnir hvort DÍF hafi áhuga að halda hlýðnipróf í samvinnu með vinnuhundadeild.  Það hefur verið rætt innan vinnuhundadeildar að það sé vilji að fá erlendan dómara til að halda próf hér á landi og halda fyrirlestur eða fund með dómurum hér á landi og hvort DÍF hafi áhuga að taka þátt í því.  Undanfarin ár hefur lítið verið gert með íslenska fjárhunda þegar kemur að vinnu og telur að þetta sé kjörinn vettvangur til að hvetja fólk til að byrja í þessu skemmtilega sporti.  Stjórn ræddi aðeins um hin ýmsu vinnupróf sem eru í boði.  Monika hefur samband við vinnuhundadeild og kannar málið nánar.

 

Börn og hundar (æfingar sem hafa verið haldnar í korputorgi).  Ágúst spyr hvort það sé áhugi hjá DÍF að taka þátt í þessu, annaðhvort með PMF deild eða jafnvel prófa að gera þetta á eigin vegum?  Stjórn sýnir meiri áhuga fyrir því að fá að taka þátt með PMF deild.  Haldið fyrsta laugardag hvers mánaðar.  Ágúst hvetur stjórn til að mæta næst og kynna sér málið betur

 

Ágúst talar um DNA faðernispróf sem verið er að bjóða upp á hér á landi.  Er þetta framtíðin og verður möguleiki að þetta gæti orðið krafa frá DÍF að ræktendur framkvæmi faðernisgreiningu á hverjum hvolp sem fæddist hjá þeim.  Stjórn ræddi þetta mál ásamt öðrum kröfum sem settar eru á skráningu hvolpa í dag.  Það er möguleiki að eitthvað tengt þessu gæti orðið að veruleika í framtíðinni en eins og staðan er í dag þá finnst okkur ekki rétt að setja fleiri kröfur á íslenska hundinn.

 

 

Fundi lokið 23:00